Við höfum séð það í eineltiskönnun okkar að árgangar skera sig stundum úr. Þetta þekkir skólafólkið vel. Eitt árið er 5. bekkur (eða einhver annar) allt öðru vísi en 5. bekkurinn var í fyrra!

  • Um þessar mundir virðist sem 9. bekkurinn í þeim skólum sem fylgja Olwesuaráætluninni skeri sig úr – sérstaklega á þetta við stúlkurnar í árganginum. Ekki bara að eineltið sé meira en áður heldur eru fleiri mælikvarðar og breytingar á svipaða lund: Um 7% stúlknanna segjast hafa verið lagðar í einelti en árinu áður voru þær milli 4 og 5 prósent.  Ríflega 8% segja að þeim líði illa eða hreint af mjög illa í skólanum. 5% nemenda í 5. – 10. bekk í Olweusarskólum segir að þeim líki illa eða mjög illa í skólanum.  Breytingar hjá strákunum í 9. bekk er á sömu lund og stelpnanna milli ára. Í fyrra voru milli 5 og 6 prósent stráka og stelpna í 9. bekk sem líkaði illa í skólanum.

Miklu máli skiptir að nemendur eignist og eigi góða vini eða góðar vinkonur. Og sem allra fyrst á skólagöngunni. Vina- og vinkvennahópurinn getur verið af ýmsum gerðum. Vitað er að þegar kemur fram á unglingsárin þarf sterkasti vinahópurinn ekki endilega að tengjast skólanum beint. Hann getur tengst frístundum; íþróttum t.d.Talið er að stelpum sé enn mikilvægara en strákum að tengjast sterkum vinaböndum. Við vitum að það geta orðið erfið mál sem koma fram þar sem stelpurnar verða viðskila eða einhver verður útundan. Sem betur fer getur það verið um stundarsakir. Skólafólkið þarf að fylgjast vel með.

  • Við tökum mikið mark á því ef nemendur eiga góða vini í skólanum. Nú gerist það t.d. með þennan árgang, 9undu bekkingana, að ein af hverjum tíu stelpum segir að þær eigi annað hvort enga góða vinkonu eða bara eina. (Þetta geta auðvitað lika verið góðir vinir). Við leggjum áherslu á að vinirnir séu á staðnum. Í fyrra sögðu 7% stelpnanna að þær ættu enga eða eina vinkonu. Nú eru þær 10%.

ÞHH