Fréttir

Þessa dagana taka hálft sjötta þúsund nemenda í 4. – 10. bekk þátt í viðamikilli könnun um einelti og líðan. Könnunin er liður í Olweusarverkefninu og er nú lögð fyrir nemendur í skólum sem hófu innleiðingu eineltisáætlunarinnar árið 2002. Er þetta í þriðja sinni sem hún er lögð fyrir í þessum skólum. Síðast var eineltið kannað í febrúar sl. og þá í þeim 30 skólum sem hófu starfið haustið 2004, en auk þess í nokkrum þeirra skóla sem voru með í fyrstu lotunni árið 2002. Á árinu 2005 munu því liggja fyrir niðurstöður úr tveimur rannsóknum sem varpa ljósi á líðan um 13 þúsund nemenda í grunnskólum landsins. Olweusarverkefnið á Íslandi hefur fyrir löngu slegið öll met. Um helmingur nemenda í landinu hafa tekið þátt.

Olweusarverkefnið á Íslandi er einstakt – ekki bara í skólasögu landsins heldur einnig í samanburði við eineltisáætlanir um allan heim. Hvergi hefur árangur á grunnskólastigi náðst betri en í íslenskum skólum, þar sem árangur á unglingastigi vekur sérstaka athygli á heimsvísu. Þátttaka á Íslandi slær líka öll met.